Þrátt fyrir allt sem sagt er um nýja miðla og gamla, þá snýst megnið af því umróti um það með hvaða hætti fréttum er komið til neytandans og hvernig og hvar eru fundnar tekjur til þess að standa undir þeirri öflun, vinnslu og miðlun frétta. Á dögum smelludólga, slebbaslúðurs og margendursagðra frétta getur það reynst flókið og jafnvel skeinuhætt vandaðri fréttamiðlun.

Ef við lítum hins vegar til vinsælustu vefja landsins, helstu fréttamiðla nánar tiltekið, má sjá að þar eru það hin hefðbundnu fjölmiðlavígi, sem þar standa sterkust. Yfirburðir Morgunblaðsins eru verulegir, en tiltölulega sterk staða DV er einnig athyglisverð, þótt þar vefjist tekjuhliðin ljóslega fyrir mönnum. En eins má spyrja hvers vegna RÚV með allt sitt traust stendur ekki betur.