Það er fákeppni á íslenskum sjónvarpsmarkaði (hvernig mætti annað vera?!), en auðvitað er það ekki þannig að hann sé ónæmur fyrir erlendri samkeppni. Allra síst nú þegar efnisveitur eins og Netflix, Amazonog Apple banka á dyrnar.

Íslensku stöðvarnar – látum hlutfall íslensks dagskrárefnis liggja milli hluta – eru í nokkuð föstum skorðum. Þar ber Ríkisútvarpið höfuð og herðar yfir aðrar, með um helming áhorfs. Stöð 2 og aðrar stöðvar 365 eru með tæpan þriðjung áhorfs, en Síminn er með um sjöttung áhorfs.

Aðrar stöðvar með miklu minna. Fyrir utan yfirburði ríkisfjölmiðilsins er kannski eftirtektarverðast hvernig hinir miðlarnir ná í meiri mæli til yngri áhorfenda en eldri. Það er varla tilviljun að þeir höfði betur til þeirra eftirsóknarverðu neysluhópa, því þeir þurfa að sækja allar tekjur til auglýsenda og kostenda.