Dagblöð hafa löngum verið burðarás fjölmiðlunar, en þau hafa víðast gefið mjög eftir undanfarin ár, eftir því sem netmiðlum hefur vaxið ásmegin. Þetta sést vel á grafinu að ofan, þar sem sýnd er samanlögð dagleg útbreiðsla dagblaða í Bandaríkjunum frá lokum seinna stríðs.

Segja má að þau hafi haldið áfram að sækja í sig veðrið fram á sjöunda áratuginn, en þá náð jafnvægi í útbreiðslu. Svo tekur hún að minnka um sama leyti og netið verður almenningseign og hefur hraðar sigið á ógæfuhliðina hin síðari ár. Segir grafið þó ekki alla sögu, því Bandaríkjamenn voru 140 milljónir í stríðslok, en eru 327 milljónir nú.