Tölur um auglýsingatekjur íslenskra fjölmiðla eru nokkuð auðfundnar með því að kanna virðisaukagreiðslur, en sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF) má sjá að þar standa íslenskir fjölmiðlar langt að baki miðlum á Norðurlöndum, þar sem fjölmiðlaumhverfið er þó um flest nokkuð svipað. Nema að því leyti að hér er virðisaukaskattur á fjölmiðla með því langhæsta sem gerist í Evrópu. Til stendur að lækka hann verulega eða fella niður á kjörtímabilinu. Ekki er hins vegar öruggt að íslensk fyrirtæki veiti minna í auglýsingar en gerist annars staðar, því í þessar tölur vantar auglýsingaútgjöld til erlendra netrisa á borð við Google og Facebook.