Flestir hafa fyrir satt að það þrengist æ meir að prentmiðlum á dögum nýmiðlunar og miðað við lestarkannanir Gallup virðist mikið til í því. Að ofan sést hvernig lestur Fréttablaðsins dregst saman ár frá ári og sömuleiðis hjá Morgunblaðinu, þó sú þróun sé mun hægari. En lestur skv. slíkum könnunum er ekki allt, eins og Fréttatíminn fékk að reyna.

Moggamenn benda einnig á rannsóknir um að blað þeirra sé mun betur lesið en Fréttablaðið, sem er í takt við reynsluna annars staðar frá, þar sem áskriftarblöð eru lesin meira en fríblöð (enda yfirleitt efnismeiri). Af auglýsingabirtingum má ráða að markaðurinn fallist á þau rök að miklu leyti.