Þegar litið er á mælingar á notkun íslenska vefjarins, fjölmiðla þá sérstaklega, blasir við að þar ríkir að miklu leyti tvíkeppni Morgunblaðsins og 365, mbl.is og Vísis.

Þó að ýmsir aðrir miðlar njóti talsverðra vinsælda, nægra fyrir salti í grautinn, þá er það samt miklu, miklu minna. Séu þeir ekki þeim mun sérhæfðari eiga þeir bágt með að keppa við Mogga og Vísi í almennum fréttum.

Þar með er þó ekki öll sagan sögð. Margir fá til dæmis fréttirnar helst á Facebook og láta sér þá oft nægja að lesa ágripið þar, en smella ekki áfram nema fréttin veki sérstakan áhuga.

Tölfræði um deilingu frétta á félagsmiðlum kynni einnig að vera fróðleg, en ýmislegt bendir til þess að hún sé ekki í réttu hlutfalli við lestur miðlanna.