Reuters-stofnunin við Oxford-háskóla gengst reglulega fyrir víðtækum könnunum um fjölmiðla og neytendahegðun og athugar m.a. hvernig fólk nálgast helst fréttir. Um þriðjungur fer beint í fjölmiðla (hefðbundna eða á vefnum), um fjórðungur notar leitarvélar, og annað eins félagsmiðla.

Töluverður munur er á löndum að þessu leyti. Bretar og Norðurlandaþjóðir leita þannig helst frétta í fjölmiðlum milliliðalaust, meðan félagsmiðlar eru aðalfréttagáttirnar í Austur-Evrópu og Rómönsku Ameríku. Víða í Asíu leita menn hins vegar helst frétta á gáttum eins og Yahoo! í Japan eða netrisum á heimavelli líkt og Naver og Daum í Kóreu.