Gallup hóf nýverið að mæla notkun vefmiðla í samkeppni við Modernus, en sá er gallinn við það að hvorugt fyrirtækið mælir alla  miðla. Gallup hefur þó óneitanlega náð verulegu forskoti með því að tryggja sér viðskipti við Morgunblaðið, 365 og DV, en á  Modernus er Ríkisútvarpið enn (og er tekið í nefið af vedur.is), auk nokkurra minni netmiðla.

Sem fyrr tróna Netmogginn og Vísir í efstu sætum og lesturinn er á Morgunblaðinu raunar slíkur að það getur enn gert tilkall til  þess að teljast „blað  allra  landsmanna“ á þeim forsendum.

Vísir mun hins vegar gjalda þess að fleiri koma þangað um félagsmiðla en forsíðu og staldra því gjarnan skemur en lesendur Mogga. Og ætli  DV geti ekki bara vel við unað sem 3. helsti  netmiðill þjóðarinnar með 140.000  meðal­notendur.