Það var ekki mjög jafnt á með mönnum komið þegar við litum til frétta af forystumönnum helstu framboða til alþingiskosninga í síðustu viku. Ríkisstjórnarflokkarnir gnæfðu þar yfir allt eins og tveir turnar.

Það er ekki alveg sömu sögu að segja þegar litið er til framboðanna, þar er leikurinn talsvert jafnari, enda hefur að undanförnu borið mikið á alls kyns kosningaefni í fjölmiðlum, þar sem flestra flokka er getið.

Greina má mun á flokkum. Björt framtíð og Vinstrigrænir hafa þannig aðeins nýverið látið til sín taka, Íhald og Píratar eru fyrirferðarmikil eins og vera ber, Framsókn fer hátt sakir hins sögulega flokksþings og formannskosningar, en Samfylkingarinnar er mjög ríflega gefið.