*

föstudagur, 29. maí 2020
Fjölmiðlapistlar 22. september 2019 13:41

Tölfræði og staðreyndir

Það er raunar eitt helsta hlutverk blaðamanna að staðreyna frásagnir, lesendum til upplýsingar og skilnings.

Andrés Magnússon
None

Netið geymir margan vísdóm og speki, sem er öllum innan seilingar til upplýsingar og skilnings. Þar á meðal er tilvitnun í Abraham Lincoln Bandaríkjaforseta þess efnis að menn skyldu vara sig á því að ekki er allt sem á alnetinu stendur satt og rétt.

Við Íslendingar þurfum svo sem ekki að hafa orð frjálsræðishetjunnar góðu fyrir því, okkur nægir að minnast orða Ara fróða um að hafa ber það sem sannara reynist.

Það er raunar eitt helsta hlutverk blaðamanna að staðreyna frásagnir, lesendum til upplýsingar og skilnings.

Nú er það svo að blaðamenn eru í eðli fjölfræðingar, þeir þurfa að vita margt, hafa nasasjón af flestu og jafnframt að skilja hvenær þeir þurfa að staðfesta, sannreyna og leita skýringa. Einhverntímann í upphafi ferilisins var undirrituðum sagt að blaðamenn þyrftu að vita eitthvað um allt, þó það kostaði að þeir vissu ekki allt um nokkurn skapaðan hlut! En þá geta þeir líka leitað til sérfræðinga um hitt, vitað hvenær og hvert á að leita frekari svara.

                                                                  * * *

Vandinn getur þó einnig verið sá að sérfræðingar eru ekki alltaf á einu máli og hafa jafnvel endrum og sinnum rangt fyrir sér eins og annað fólk. Og svo er það nú svo að maðurinn veit ekki allt og er sífellt að komast að einhverju nýju.

                                                                  * * *

Þetta þekkja fjölmiðlaneytendur vel af fréttum af hinum og þessum rannsóknum utan úr heimi. Þar er í dag sagt frá því að hóflega drukkið rauðvín sé heilsubót, en á morgun að það sé stórhættulegt. Að kaffidrykkja sé samkvæmt nýjustu rannsóknum óholl, en á morgun berast nýjar rannsóknir um að hún sé allra meina bót. Að súkkulaði sé gott eða slæmt og svo framvegis.

Ástæður fyrir svo misvísandi fréttum eru margvíslegar, en algengast er sjálfsagt að þar ræðir um endursagnir á endursagnir ofan af afmörkuðum rannsóknum á tilteknu þýði með tiltekna lífshætti og heilsuþætti í huga, sem síðan getur stangast á við aðrar niðurstöður.

Þess vegna eru þær rannsóknir yfirleitt áreiðanlegastar sem taka til sem flests fólks á sem lengstum tíma og hafa verið dyggilega rýndar. Eins er oft mest að marka samsettar og samanteknar rannsóknir, þar sem teknar eru saman margar rannsóknir og þættirnir látnir vegast á. Það fyrirbyggir ekki mistök eða hæpnar niðurstöður, en er á heildina mikið á að byggja.

Slíkar fréttir þarf því oft að taka með nokkrum fyrirvara og það gera lesendur sjálfsagt flestir, a.m.k. þegar um er að ræða rauðvín og súkkulaði. En hugsanlega ættu blaðamenn einnig að vera tortryggnari eða vandfýsnari á svona fréttir.

Það á auðvitað ekki síður við þegar fjallað er um rannsóknir á alvarlegri sjúkdómum eða lyfjaþróun. Reglulega berast fréttir af framförum, sem margar eru góðar og gleðilegar og oft reynast skipta sköpum í læknismeðferð. Yfirleitt er það þó þannig að þó rannsóknir lofi góðu, þá er oftast langt í að þær nýtist til læknismeðferðar og því ættu blaðamenn að fara varlega í sakirnar, varast að vekja falsvonir, og helst að leita álits innlendra sérfræðinga, sem jafnan geta sett fréttirnar í raunhæft samhengi fyrir lesendur, hlustendur eða áhorfendur.

Svo er einnig rétt að hafa í huga að vísindin eru misgóð. Óþarfi ætti að vera að minna á viðtekin sannindi í manneldi, sem árum saman var gengið út frá að væru rétt – bæði í fjölmiðlum og af stjórnvöldum – en hafa síðan ekki reynst jafnábyggileg og menn héldu. Rautt kjöt, kolvetni, salt, egg eða smjer, sem ýmist eru bráðholl eða afskaplega óholl eftir áratug.

Við þekkjum líka nýlegt, innlent dæmi um að ekki er öll tilraunastarfsemi í læknavísindum til fyrirmyndar, jafnvel svo jaðrar við skottulækningar og þannig menn voru læknaðir alla leið úr þessum heimi. Fram af því hafði hins vegar verið fjallað fremur vinsamlega um í fjölmiðlum.

Fals er ekki óþekkt í hinum akademíska heimi heldur, eins og hefur verið að koma mjög upp á yfirborðið hin síðari ár, þar sem alls kyns tilraunir (ekki síst í sálfræði og atferlisfræði) hafa reynst óáreiðanlegar, sumar er ekki hægt að endurtaka með sömu niðurstöðum, aðrar standast ekki fræðilega rýni svona eftir á að hyggja og einhverjar hafa reynst beinlínis falsaðar.

Kannski það sé erfitt fyrir blaðamenn að vara sig á slíku, þeir vita fæstir mikið um læknisfræði eða tölfræði. En þá geta þeir leitað ráða. Vandinn er kannski sá að það er afar fátítt. Fjölmiðlarýnir spurði nokkra tölfræðinga í háskólasamfélaginu hvort algengt væri að blaðamenn leituðu til þeirra. Svörin voru því miður frekar fyrirsjáanleg. Sumir þeirra höfðu aldrei fengið fyrirspurn frá blaðamanni. Nokkrir minntust þess þó að hafa fengið símtöl frá blaðamönnum, en þau voru afar fátíð, 1-2, og mörg ár síðan. Það er nú ekki nógu gott. Verra var þó að einnig var kvartað undan að síðan væri misvel eftir þeim haft. Einn sagði að þá sjaldan vikið væri að tölfræðilegum álitamálum í fjölmiðlum mætti heita öruggt að það væri rangt.

                                                                  * * *

Fjölmiðlarýnir rak augun í að á Vísi birtust reglulega frekar óspennandi fréttir af þróunarsamvinnu Íslands, sem báru það mjög með sér að vera skrifaðar í ráðuneytinu. Þegar hann rýndi nánar, þá sá hann svo að þær voru raunar sérmerktar, því fremst stóð með smáu letri „Heimsljós kynnir“. Og aftan við hana var sagt:

Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.

Rýni rak minni til að hafa séð þegar verið var að bjóða þetta þróunarsamstarf við fjölmiðla út og lét sér þá fátt um finnast. En nú eftir að verkefnið er komið í fullan gang eru efasemdirnar enn ríkari. Ekki af því að efnið sé slæmt, heldur vegna þess að fjölmiðlar eiga ekki undir nokkrum kringumstæðum að framselja ritstjórnina.

Hvað myndi mönnum finnast um að fréttir af sveitarstjórnamálum kæmu bara úr samgönguráðuneytinu, sakamálafréttirnar samkvæmt samningi við dómsmálaráðuneytið, innlendar fréttir frá innanríkisráðuneytinu, listgagnrýnin úr menningarmálaráðuneytinu og pólitískar fréttir beint úr forsætisráðuneytinu? Allt auðvitað í samræmi við fagleg útboð.

Nei, þetta er della og henni þarf að linna. Nóg eru nú afskipti hins opinbera af fjölmiðlum samt og syrtir víst senn í álinn enn frekar verði miðlarnir gerðir háðir fjárveitingavaldinu um styrki.

                                                                  * * *

Meira af vettvangi hins opinbera. Sagafilm fékk á mánudag fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins fyrir sjónvarpsþáttaröðina Hvað höfum við gert?, sem sýnd var í Ríkisútvarpinu. Fjölmiðlarýnir efar ekki að óséðu að þættirnir voru góðir, en ríkisvaldið á ekki að veita verðlaun fyrir þóknanlega umfjöllun og fjölmiðlar eiga ekki kappkosta að fá slíkt klapp á kollinn. Þetta eru skammarverðlaun, bæði fyrir veitendur og viðtakendur.

                                                                  * * *

Breska ríkissjónvarpið BBC greindi öllum að óvörum frá því í vikunni að innan tíðar yrði bundinn endi á 45 ára sögu textavarps þar í landi (aðrar breskar sjónvarpsstöðvar hættu textavarpi fyrir langa löngu). Fréttin kom enda aðallega að óvörum vegna þess að afar fáir vissu að BBC veitti enn þessa þjónustu.

Þetta vakti þá spurningu hjá fjölmiðlarýni hvort textavarpið væri enn virkt á Íslandi og viti menn, svo er! Það er forvitnilegur lifandi steingervingur horfinnar tæknialdar, þar sem einhver setur samviskusamlega inn örstutt ágrip frétta, en að öðru leyti virðist að mestu um sjálfvirka birtingu upplýsinga að ræða. Allt bendir það til þess að notkunin sé hverfandi.

Um næstu mánaðamót verða 28 ár síðan textavarp hófst á Íslandi. Eru það ekki tilvalin tímamót til þess að loka þessum lifandi dauða miðli?