„Það verður að bíða þess að við fullmótum tillögurnar og förum með þær í gegnum ríkisstjórn, en augljóslega er það sláandi að við erum að tapa t.d. fataverslun úr landinu í stórum stíl og í síauknum mæli eru Íslendingar að sækja sér hversdagsföt til útlanda,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við Fréttablaðið .

Þar er greint frá því að fjármálaráðherra boði heildarendurskoðun á tollakerfinu. Það sé flókið og margbrotið, leggi kostnað á atvinnulíf og hið opinbera og skili tiltölulega litlum tekjum í ríkissjóð. Horfir hann sérstaklega til lækkunar tolla á föt.

Bjarni segir að ekki sé nema von að verslun í landinu eigi erfitt í samkeppni við sum af nágrannalöndunum og bendir á að í mörgum tilvikum komi tolllagning ofan á tolllagningu sem hafi átt sér stað hjá Evrópusambandinu. Það hækki verðið og í ofanálag bætist svo 24 prósenta virðisaukaskattur á vörurnar.