Gjaldfærðar tekjur ríkissjóðs af tollum námu á árinu 2014 um 5,7 milljörðum króna. Hlutfall matvöru var 34,2%, hlutfall fatnaðar 31,5% og hlutfall annarra vara var 34,3%. Eins og fram kom í morgun áætlar Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, að afnema alla tolla fyrir utan tolla á matvöru í tveimur skrefum fyrir árið 2017. Stefnt er að afnámi tolla á fatnað og skó 1. janúar 2016 og afnám annarra tolla komi til framkvæmda 1. janúar 2017. Almenn vörugjöld höfðu áður verið afnumin um síðustu áramót.

Í samantekt Fjármálaráðuneytisins um málið kemur fram að það þýðir að tollar af 1.933 vörunúmerum verða afnumdir á næstu tveimur árum. Boðað afnám tolla tekur til vara sem falla undir 25.-97. kafla tollskrár. Er gert ráð fyrir að 324 tollskránúmer, sem falla undir fatnað og skó, lækka í 0% á árinu 2016 og 1609 tollskrárnúmer, sem eru aðrar vörur, lækki í 0% árið 2017. Hinn 17. mars 2015 skipaði fjármálaráðherra þriggja manna starfshóp um endurskoðun tollskrár. Starfshópurinn skilaði til ráðherra skilgrein þann 15. maí síðastliðinn en hana er hægt að lesa í heild sinni hér .