*

þriðjudagur, 15. október 2019
Innlent 12. júní 2019 17:01

Tollar ekki beint til Hæstaréttar

Hæstiréttur hafnaði því að innflytjendur fengju að áfrýja beint til réttarins. Félögin telja landbúnaðartolla andstæða stjórnarskrá.

Jóhann Óli Eiðsson
Undir í málinu eru tollar sem lagðir eru á nær allar tegundir innfluttra matvæla.
Aðsend mynd

Hæstiréttur hafnaði í dag málskotsbeiðni fimm innflutningsfyrirtækja sem óskað höfðu eftir því að mál þeirra gegn ríkinu, sem nýverið var dæmt í héraðsdómi, fengi að fara beint fyrir Hæstarétt. Kröfur fyrirtækjanna hlaupa á milljörðum króna.

Um er að ræða fyrirtækin Sælkeradreifingu ehf., Haga verslanir ehf., Banana ehf., Innnes ehf. og Festi hf. Krafa fyrirtækjanna byggir á því að fá endurgreidda tolla sem íslenska ríkið leggur á ýmsar landbúnaðarvörur en fyrirtækin telja að álagning tollanna sé ólögmæt. Um er að ræða kjöt, mjólkurvörur, egg, blóm, kartöflur, tómata, lauk, kál, salat, gulrætur, gúrkur og aðrar matjurtir.

Dómkröfur þeirra hljóða upp á endurgreiðslu tolla sem þau hafa innt af hendi síðustu fjögur ár fyrir málshöfðun en hún var 10. apríl síðasta ár.

Framkvæmd breytt eftir álit umboðsmanns

Forsaga málsins á rætur að rekja til sumarmánaða 2010 er Samtök verslunar og þjónustu leituðu til umboðsmanns Alþingis og kvörtuðu yfir þremur reglugerðum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Kvörtunin laut að því að lagðir væru tollar á tollverð vara sem fluttar væru inn samkvæmt tollkvótum fremur en vörumagn.

Kvörtunin varð til þess að umboðsmaður tók til skoðunar hvernig ákvæði tollalaga og búvörulaga samræmdust lagaáskilnaðarákvæðum stjórnarskrár við álagningu skatta. Umboðsmaður taldi að ekki yrði annað séð en að ráðherra hafi með framsali verið fengið vald til að ákvarða hvort sá afsláttur sem veittur er frá greiðslu á almennum tolli samkvæmt tollalögum miðist við verð eða magn þeirrar vöru sem flutt er til landsins í samræmi við tollkvóta.

Alþingi breytti umræddum í lögum eftir að álit umboðsmanns lá fyrir. Markmiðið við lagasetningunni var að takmarka þau matskenndu skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt við ákvörðun um úthlutun tollkvóta auk þess að kveða skýrt á um tollprósentu sem vörur sem fluttar eru inn á grundvelli tollkvóta skuli bera. Með því átti að tryggja að framkvæmdin væri í samræmi við stjórnarskrá.

Í lögunum var skilgreint hvaða staða þarf að vera á markaði innanlands til að úthluta þurfi tollkvótum. Einnig var skýrt hvernig tollkvótum skildi úthlutað og lögfest skilyrði fyrir þeim ákvörðunum. Þannig er gert ráð fyrir því að ráðherra sé skylt að úthluta tollkvóta þegar sýnt þykir að ekki sé nægjanlegt framboð af viðkomandi vöru innanlands.

„Framboð telst ekki nægjanlegt, [...], ef viðkomandi vara er ekki til stöðugrar dreifingar eða áætla má að hún verði það ekki í að lágmarki 90% magni af eftirspurn a.m.k. tveggja leiðandi ótengdra dreifingaraðila og er ekki fáanleg frá a.m.k. tveimur framleiðendum,“ segir nú í lögunum. Áður en ráðherra fellir niður slíka tolla ber honum því að kanna hvort innlendir framleiðendur telji sig geta annað eftirspurn markaðarins.

Telja skattlagninguna valkvæða

Í héraði byggðu fyrirtækin á því að um valkvæða skattlagningu væri að ræða. Stjórnarskráin kveði skýrt á um að skattamálum skuli skipað með lögum og að óheimilt sé að fela stjórnvöldum að ákveða hvort skattur skuli lagður á, honum breytt eða hann afnuminn. Með ákvæðinu væri verið að fela ráðherra vald um það hvort tollarnir skuli lagðir á eður ei. 

Héraðsdómur féllst ekki á þessi rök. Taldi dómari málsins að Alþingi hefði að „yfirveguðu máli og að teknu tilliti til athugasemda umboðsmanns Alþingis ákveðið að leggja ráðherra úthlutunarskyldu á herðar fremur en að kveða aðeins á um heimild í þá veru. Telst því vera skýr lagastoð fyrir því að ráðherra úthluti umræddum tollkvótum þegar uppfyllt eru þau skilyrði sem [lýst er í lögunum].“

Eftir að stofnun Landsréttar ber að áfrýja dómum héraðsdóms þangað. Í réttarfarslögum er þó heimilt að sækja um að áfrýja beint til Hæstaréttar ef þörf er á endanlegri niðurstöðu með skjótum hætti og niðurstaða dómsins gæti verið fordæmisgefandi, haft almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna eða haft verulega samfélagslega þýðingu. Fyrirtækin fimm sóttu um áfrýjunarleyfi á þeim grundvelli en Hæstiréttur taldi skilyrðin ekki uppfyllt. 

„Með beiðninni var gerð tilraun til að flýta fyrir niðurstöðu sem umbjóðendur mínir telja óhjákvæmilega,“ segir Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður félaganna fimm. 

„Nú verður einfaldlega að reka málið eftir hefðbundnum leiðum. Við vildum freista þess að flýta málinu eins og kostur er og ætluðum að láta reyna á þetta réttarfarshagræði sem þarna er boðið upp á. Því miður var ekki fallist á það. Við hlökkum bara til þess að takast á við þetta fyrir Landsrétti,“ segir Páll.