Nokkur óánægja ríkir meðal verslunarfyrirtækja sem stunda innflutning með þau vinnubrögð tollyfirvalda að endurákvarða tolla allt að 6 ár aftur í tímann, eða löngu eftir að umrædd innflutningsvara hefur verið seld. Tollyfirvöld endurákvörðuðu nýlega tolla á tiltekna matvöru sem flutt hefur verið til landsins í áratugi. Þessi ákvörðun hafði í för með sér að fyrirtækið þurfti að greiða yfir 41 millj. kr. í viðbótartolla og dráttarvexti. Varan var vitaskuld löngu seld og fyrirtækið situr uppi með skellinn. Svo virðist sem slíkum málum hafi farið fjölgandi og staðfest er hjá tollyfirvöldum að gera megi ráð fyrir aukinni tíðni þeirra á næstunni.

Í Fréttabréfi sínu benda Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) á að samtökin hafi undir höndum fleiri dæmi um fyrirtæki sem hafa fengið endurákvörðun tolla löngu eftir að innflutningur átti sér stað. Þar á meðal er fyrirtæki sem lengi hefur flutt inn sams konar matvöru og tollflokkað hana á grundvelli vottorða frá erlendum birgja um uppruna hennar. Síðar kom í ljós að uppruni vörunnar var annar en erlenda vottorðið sagði til um, sem hafði í för með sér að varan hefði átt að falla undir annan tollaflokk. Viðkomandi fyrirtæki þurfti að greiða yfir 6 milljónir í viðbótartoll þó varan væri löngu seld og augljóst að mistökin voru ekki fyrirtækisins.

Lögmaður sem annast slík mál fyrir innflutningsfyrirtæki segir að aukinn fjölda slíkra mála hafi komið upp eftir að kveðinn var upp hæstaréttardómur í slíku máli síðastliðið vor þar sem staðfestur var viðbótartollur sem tollstjóri hafði ákvarðað vegna 40 vörusendinga á þakplötum sem fyrirtækið flutti inn frá 1996 til 2000.

"Fyrningartími sem nær til 6 ára er óeðlilega langur í þessum málum því vörur sem fluttar eru til landsins fara venjulega strax í endursölu og álagning miðast við þá tolla sem greiddir voru við innflutninginn. Öðru máli gegnir t.d. um endurákvörðun á sköttum sem fyrirtæki eða einstaklingar skila ekki og geta stungið í eigin vasa. Í slíkum tilvikum er eðlilegra að fyrningartími sé 6 ár.

Í stjórnarfrumvarpi að lögum um ný tollalög, sem lagt var fram á Alþingi sl.vor, er þetta ákvæði fest í sessi. Þar er gert ráð fyrir að öll tollskýrslugerð fyrirtækja fari fram með svokölluðu SMT (Skjalasending milli tölva) og jafnframt er gert ráð fyrir því að 6 ára endurákvörðunartími tollstjóra gildi alltaf þegar slík tollskýrslugerð hefur átt sér stað.

Eina leiðin fyrir fyrirtæki til að koma í veg fyrir að eiga yfir höfði sér endurákvörðun tollstjóra nokkur ár aftur í tímann er að krefjast bindandi álits tollstjóra í hvert sinn sem ný vara er tollflokkuð. Það tefur þó tollafgreiðslu og má ætla að auki verulega vinnuálag hjá tollstjóraembættunum sé þetta gert í miklum mæli. SVÞ hafa óskað eftir fundi með Fjármálaráðuneytinu til að fara yfir athugasemdir samtakanna og aðildarfyrirtækja við frumvarpið," segir í frétabréfi SVÞ.