*

mánudagur, 20. janúar 2020
Erlent 24. júlí 2018 17:11

„Tollar eru bestir!“

Trump segir tolla vera „besta“, en hann mun funda með Juncker á morgun, meðal annars um tollamál.

Ritstjórn
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er mjög hrifinn af tollum.
epa

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, tístí í dag skoðun sína um að honum þyki tollar vera „bestir!“. „Annaðhvort gera þau ríki sem hafa komið fram við Bandaríkin á ósanngjarnan hátt þegar kemur að milliríkjaviðskiptum sanngjarnan viðskiptasamning, eða þau fá á sig tolla. Það er ekki flóknara en það – og allir eru að tala saman! Munið, við erum „sparibaukurinn“ sem er verið að ræna. Allt verður frábært!“ sagði ennfremur í tístinu.

Á morgun, miðvikudag, mun Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, eiga viðræður við Trump í Washington-borg. Embættismenn sambandsins hafa bundið vonir við að Juncker geti talað Trump ofan af því að leggja frekari tolla á það, en 25% tollar voru lagðir á innflutning stáls frá sambandinu fyrr á þessu ári.

Trump hótaði í síðustu viku „geigvænlegum hefndaraðgerðum“ ef ekki næðust sanngjarnir samningar um bílaviðskipti, að hans mati.

Hann lýsti Evrópusambandinu nýlega sem „fjandmanni“ í milliríkjaviðskiptum, en hann hefur einnig lagt tolla á Kína, og hótað að leggja tolla á allt að 500 milljarða dollara virði af viðskiptum í viðbót við Kínverja.

Stikkorð: tollar Trump Juncker