Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segist stefna að því að afnema tolla á fatnað og skó jafnvel strax í haust. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu .

Þar segir að von sé á skýrslu starfshóps um tollamál á næstu dögum, en Bjarni mun hafa óskað eftir því að skoðuð yrðu áhrif af afnámi tolla með sérstakri áherslu á aðra tolla en lagðir eru á matvæli. Segir hann ekki fjarri lagi að flokka tolla í tvennt, þ.e. tolla matvæli og tolla á iðnaðarvörur, en þar undir séu t.d. föt og skór.

Þá segist hann telja að það ætti að koma til skoðunar að afnema alla tolla. „Það er alveg skýrt í mínum huga að það myndi auka framleiðni í landinu. Það myndi draga úr bjögun á verðmyndun, það myndi styrkja samkeppnishæfni landsins og ávinningurinn af slíku tel ég að muni vinna upp tekjutap til skamms tíma,“ segir hann.