20% tollur er á íslenskan makríl í ESB-ríkjunum og er það helsta ástæðan fyrir því að makríll er aðallega seldur til Austur-Evrópu. Þetta segir Garðar Svavarsson, deildarstjóri uppsjávarsviðs HB Granda.

Netverjar spurðust fyrir það á vef Spyr.is hver ástæðan sé fyrir því að makríll héðan sé aðallega seldur til Austur-Evrópu fremur en til annarra landa og hvort þar sé ekki greitt hærra verð.

Garðar svarar:

„Það er 20% tollur á íslenskan makríl inn til ESB landa sem skerðir samkeppni okkar við aðrar framleiðsluþjóðir innan ESB.

Í A-Evrópu er hinsvegar rík neysluhefð fyrir makríl líkt og í V-Evrópu og er sá markaður í flestum tilfellum vel samkeppnishæfur í verðum.

Munur á flutningskostnaði er innan við 5% af söluverði vörunnar. Fram til þessa hefur ekki verið tollur á færeyskan makríl inn í ESB vegna samkomulags þeirra við Danmörku.

Færeyingar hafa því selt stóran hluta af sínum makríl til ESB landa en helst til Póllands og Rúmeníu.“