Hvað er ostur og hvað er ekki ostur? Vanalega ætti svarið að liggja í augum uppi, til að mynda þegar skera þarf úr um það hvort skrifborð teljist almennt til osta eður ei, en markatilvik geta reynst flóknari. Tvö slík mál, þar sem skera þarf úr um hvað sé ostur og hvað ekki, eru nú til meðferðar, annað hjá yfirskattanefnd (YSKN) og hitt fyrir dómstólum, þar sem innflytjendur krefjast þess að flokkun tollayfirvalda verði felld úr gildi.

Málin sem undir liggja varða svokallaða pítsaosta en við framleiðslu þeirra er mjólkurfita fjarlægð og jurtafitu blandað saman við afurðina í hennar stað. Það hefur þau áhrif að við eldun flatböku þá bráðnar osturinn – raunar er réttara að tala um afurð í þessu samhengi þar sem það er á gráu svæði að markaðssetja vöruna sem ost – á annan veg en hreinn og hefðbundinn ostur og dreifist því minna. Ágreiningur málsins lýtur einkum að því hvort nægilegt sé að „bæta við“ jurtafitu til að vara falli í jurtaostaflokkinn eða hvort nauðsynlegt sé að hún þurfi að koma að öllu leyti í stað mjólkurfitunnar.

Innflutningur á vörum sem þessum hefur staðið yfir um eilítið skeið og við tollafgreiðslu þeirra endaði varan í tollskrárnúmeri 2106.9068, það er sem svokallaður jurtaostur. Þannig var það um tveggja ára skeið en í nóvember 2020 skipti tollstjóri, sem heyrir undir Skattinn, um skoðun og taldi að afurðin félli undir númerið 0406.3000, ostur og ystingur: Fullunninn ostur, órifinn eða ómulinn.

Margfaldur munur á álagningu

Munurinn á flokkunum tveimur liggur ekki í augum uppi við fyrstu sýn en við skoðun á tollskránni kemur í ljós að gjöld fyrrnefnda flokksins eru núll en hins síðari er 30%, auk 881 króna á hv ert innflutt kíló. Innflutningur á jurtaosti náði hámarki síðasta sumar þegar tæp 74 tonn voru flutt inn í júlí og ágúst en hefur hríðfallið síðan þá og var til að mynda þrjú tonn í mars þessa árs.

Fyrrnefnd dómsmál varðar nákvæmlega þessa flokkun en þar er þess krafist að úrskurður Tollgæslustjóra, frá í lok mars þessa árs, verði felldur úr gildi. Þar komst tollgæslustjóri að þeirri niðurstöðu að afurðin ætti heima í fjórða kafla tollskrárinnar, þá undir númerinu 0406.2000 en þangað falla rifnir ostar. Álögur eru þær sömu fyrir þann flokk. Hefur málið hlotið flýtimeðferð í héraði og er aðalmeðferð þess áætluð í upphafi næsta mánaðar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .