Um áramótin falla niður tollakvótar á vefnað sem framleiddur er í Kína og fluttur til ESB landa. Þetta mun að öllum líkindum leiða til aukins innflutnings á fatnaði frá Kína og um leið auka erfiðleika fataiðnaðar í Evrópu, sem hefur átt erfitt uppdráttar eins og kunnugt er. Þó sumir spái því að Evrópusambandið muni setja nýja kvóta til að verja evrópska fataframleiðslu gæti það reynst erfitt vegna nýlegrar aðildar Kína að alþjóðaviðskiptastofnuninni, WTO.

Í fréttabréfi Samtaka verslunar og þjónustu er bent á að um 18% af fatnaði sem seldur er í Evrópusambandslöndunum er framleiddur í Kína. Ef fram fer sem horfir er gert ráð fyrir að innflutningurinn muni margfaldast á næstu árum. Þessar breytingar munu koma sér best fyrir stóra fatainnflytjendur og alþjóðlega fataframleiðendur á merkjavörum sem láta framleiða fyrir sig í Kína.

"Ekki er að efa að íslensk verslun mun njóta góðs af þessari þróun sem almennt gæti stuðlað að lægra verði. Einnig geta íslenskir innflytjendur, þó þeir séu smáir í sniðum, notið góðs af nýjum viðskiptatækifærum við Kína eftir að gerður var fríverslunarsamningur milli landanna. Á vori komanda er gert ráð fyrir að forseti Íslands fari í opinbera heimsókn til Kína og með honum í för verði viðskiptasendinefnd. Heimsóknin mun hafa í för með sér mjög mikil viðskiptatækifæri fyrir þá sem vilja nýta sér þetta gífurlega stóra markaðssvæði sem nú opnar dyr sínar fyrir Evrópu. Þeim sem hafa áhuga á að taka þátt í förinni er bent á að hafa samband við skrifstofu SVÞ," segir í fréttabréfi SVÞ.