Hæstiréttur felldi í dag dóma sem létu reyna á lögmæti 59% tolls á innflutt kartöflusnakk. Þá höfðu þrjú fyrirtæki stefnt ríkinu og krafist endurgreiðslu á snakktollinum. Félag atvinnurekenda segir frá þessu.

Dómur Hæstaréttar er staðfesting á ákvörðun héraðsdóms þar sem ríkið var sýknað af kröfu fyrirtækjanna um endurgreiðslu á tollinum. Tollurinn verður þó afnuminn um næstu áramót, en ákvörðun var tekin um það á Alþingi í desember.

Í málsvörn sinni hélt ríkið því fram að tollurinn væri ætlaður til almennrar tekjuöflunar. Þá væri hann ekki verndartollur fyrir innlenda framleiðslu. Þó voru engin svör gefin á því hvers vegna þessi tiltekna útgáfa af snakki ætti að vera sérstök tekjulind, eða hvers vegna gjaldtakan væri svona há.