Tollar og gjald fyrir tollkvóta eru hátt hlutfall verðs innfluttrar búvöru. Kemur þetta fram í skýrslu starfshóps um tollamál á sviði landbúnaðar, sem unnin var fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Skýrslan hefur verið birt á vef ráðuneytisins.

Félag atvinnurekenda gerir skýrsluna að umfjöllunarefni á heimasíðu sinni og bendir á að árið 2013 nam tollverndin um 50% af verði alifuglakjöts, 40% verðs unninna kjötvara, 32% af verði svínakjöts og 26% af verði nautakjöts. Má sjá þetta á meðfylgjandi töflu sem fengin er af bls. 28 í skýrslunni.

Segir í umfjöllun FA að neytendur tapi á þessu háa hlutfalli tollverndar, enda geti innlendir framleiðendur selt vöru sína á hærra verði í skjóli hárra innflutningstolla. Í skýrslunni segir að ætla megi að íslenskir bændur fái greitt að meðaltali 35% hærra afurðaverð frá neytendum heldur en ef engar hindranir væru á innflutningi.