Skýrt kemur fram í nýrri skýrslu um þróun tollverndar , sem unnin var á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og birt á þriðjudag, að tollvernd fyrir innlendan landbúnað sé ríkust á Íslandi af vestrænum ríkjum. Þetta stangist mjög á við villandi útreikninga, sem forystumenn innan Bændasamtaka Íslands hafi látið frá sér fara að undanförnu og eigi að sýna fram á að tollvernd sé hér lítil. Er þetta mat Félags atvinnurekenda að því er kemur fram í frétt á vef félagsins.

„Í skýrslunni eru gögn frá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) notuð til að bera saman tollvernd á milli landa og reiknað svokallað NPCc-hlutfall. Það er það verð sem framleiðendur fá greitt fyrir afurðir sínar sem hlutfall af innflutningsverði, þ.e. heimsmarkaðsverði vörunnar auk flutningskostnaðar. Ef hlutfallið er 3 er verð til framleiðenda þrisvar sinnum (200%) hærra en verð á heimsmarkaði, en ef það er einn er verð til framleiðanda jafnt heimsmarkaðsverði. Í samanburðinum er þetta hlutfall reiknað fyrir vegið meðaltal helstu landbúnaðarafurða sem hvert ríki framleiðir,“ segir í frétt FA.

Niðurstaðan sé því sú að tollvernd á Íslandi sé langt umfram það sem tíðkast að meðaltali í aðildarríkjum OECD, eða 1,77 að meðaltali árin 2017-2019. Það þýði að afurðaverð til bænda sé að jafnaði 77% hærra en innflutningsverð sambærilegrar vöru ef engar hindranir væru á innflutningi. Hlutfallið fyrir Noreg sé 1,73, fyrir Sviss 1,42, fyrir OECD í heild 1,12 og fyrir Evrópusambandið 1,04. Það þýði t.d. að í Evrópusambandinu sé tollverndin aðeins ígildi um 4%.

Nánar má lesa um svör Félags atvinnurekenda við meintum villandi útreikningum Bændasamtakanna hér .