Tollyfirvöld opnuðu 3.722 bréfasendingar sem voru 0,1 gramm til 2 kíló að þyngd á tímabilinu frá 1. júlí á þessu ári og fram til 20. nóvember. Bréfasendingar til landsins á sama tímabili voru 1.150.000 samkvæmt upplýsingum frá Íslandspósti.

Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur þingkonu Pírata um opnun sendibréfa. Birgitta óskaði eftir upplýsingum um það hversu oft íslensk stjórnvöld, eða einhver í þeirra umboði, hefðu opnað sendibréf til og frá Íslandi á árunum 2005 til 2013.

Í svarinu kemur fram að lítil tölfræði liggi fyrir um opnun þunnra bréfasendinga hjá tollstjóra, þrátt fyrir að þessi tala liggi fyrir. Þrátt fyrir að tollstjóri hafi heimild til að beita handahófskenndu eftirliti viðhefur embættið þá verklagsreglu að opna ekki bréfasendingar nema grunur liggi fyrir um að sending innihaldi eitthvað ólögmætt, til dæmis ef fíkniefnahundur merkir við umslag.