„Ég ætla að taka saman nokkrar áhugaverðar tölur sem finna má í Mælaborði Jafnvægisvogarinnar og setja þær í samhengi við samtímann og veruleika okkar í dag. Þetta eru tölur sem vekja tilfinningar og segja sögu sem á brýnt erindi við atvinnulífið og við okkur öll sem einstaklinga,“ segir Rakel Sævarsdóttir, ráðgjafi hjá Deloitte á sviði stjórnunar og stefnumótunar, í samtali við Viðskiptablaðið.

Rakel er ein af þeim sem heldur erindi á ráðstefnu um jafnrétti í atvinnulífinu, sem verkefnið Jafnvægisvogin stendur fyrir. Hún er þar í góðum hópi ræðumanna en meðal þeirra sem taka til máls eru Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Marel á Íslandi og Tatjana Latinovic, formaður Kvenréttindafélags Íslands. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flytur opnunarávarp ráðstefnunnar og Eliz Reid lokar henni með ávarpi og afhendingu verðlauna Jafnvægisvogarinnar.

„Mælaborð Jafnvægisvogarinnar er frábært verkfæri þar sem upplýsingar úr gagnagrunni Hagstofunnar eru settar fram á aðgengilegan og myndrænan hátt þannig að allir geta nálgast þær og skilið. Tölurnar segja líka mikilvæga sögu um þróun samfélagsins og baráttunnar fyrir jafnrétti. Til að mynda hvernig okkur miðar á vegferðinni að markmiðinu sem Félag kvenna í atvinnulífinu setti sér um 40/60 hlutfall á milli kynja í framkvæmdastjórnum fyrirtækja fyrir árið 2027. Úr gögnunum má lesa um það sem hefur áunnist en mikilvægasta sagan fjallar þó um hve langt er enn í land að fullu jafnrétti sé náð,“ segir Rakel.

„Myndin og sagan sem tölurnar segja er af veruleika sem við könnumst öll við,“ segir Rakel sem er nýskriðin yfir þrítugt og býr ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum. „Við erum þessi týpísk nútíma vísitölufjölskylda; báðir foreldrarnir eru útivinnandi í krefjandi störfum og eru að leita leiða að jafnvægi þar sem metnaður í starfinu og kröfur vinnuveitandans geta farið saman með farsælu fjölskyldulífi.

Leitin að þessu jafnvægi er þó ekki eingöngu undir okkur sem einstaklingum komið. Verkefnið verður ekki leyst nema samfélagið allt leggist með okkur á árarnar. Því er svo mikilvægt að atvinnulífið sé upplýst um stöðuna og skilji veruleikann sem fólk er að kljást við dag frá degi. Og það er einmitt af þessum sökum sem jafnvægisvogin er mikilvæg. Hún upplýsir okkur um stöðuna og stuðlar þannig að menntun og skilningi. Og það er öflugast hreyfiaflið í átt að jafnrétti og betra samfélagi.