Í ljósi þess hversu veikt gengi krónunnar er hlýtur afgangur af vöruskiptum í apríl að valda áhyggjum, veikt gengi krónunnar hefði frekar átt að ýta undir útflutning auk þess sem að verð sjávarafurða og áls er hærra í íslenskum krónum.

Þetta kemur fram í viðbrögðum IFS Greiningar við vöruskipajöfnuði í apríl en samkvæmt bráðabirgðatölum frá Hagstofu Íslands var afgangur af vöruskiptajöfnuði í apríl aðeins 2,3 milljarðar.

IFS segir útflutninginn hafa verið slappan í mánuðinum, aðeins 31,7 milljarðar króna en innflutningur nam 29,4 milljörðum króna.

Veikt gengi krónu í apríl kemur ekki á óvart

„Við höfðum frekar búist við styrkingu gengis krónunnar í apríl en lítið útflæði var vegna vaxtagjalddaga í apríl,“ segir IFS Greining.

„Tölur um vöruskiptajöfnuð sem birtust nú í morgun útskýra hins vegar af hverju krónan styrktist ekki en afgangurinn rétt nægir til að standa straum af útflæði gjaldeyris í apríl. Ljóst er að útflutningur í apríl er töluvert undir væntingum okkar og eykur líkurnar á að gengi krónu nái sér ekki á strik á næstunni.  Í bráðabirgðatölum kemur fram að vísbendingar eru um meiri innflutning hrá- og rekstrarvara sem gefur vonir um að útflutningur aukist á næstu mánuðum.“