Eins og áður hefur komið fram fer úrslitaleikurinn í ameríska fótboltanum (NFL) fram í kvöld. Þar keppa New York Giants á móti New England Patriots um ofurskálina, eða Super Bowl eins og hún er kölluð vestanhafs.

Bloomberg fréttaveitan hefur tekið saman nokkrar áhugaverðar tölulegar staðreyndir um þann kostnað sem fylgir leiknum. Í byrjun úttektar Bloomberg kemur fram að réttast væri að kalla þetta ofurdýru skálina, þar sem miðar á leikinn eru að seljast á um 2 þúsund Bandaríkjadali, verð á hótelherbergjum hækkar um tæp 1.800% og 30 sekúnda sjónvarpsauglýsingar eru að seljast á um 3,5 milljónir dala. Á vef Viðskiptablaðsins í gær var fjallað um andvirði sjónvarspauglýsinga Super Bowl sl. 10 ár.

Super Bowl 2012 fer fram á Lucal Oil Stadium í Indianapolis.
Super Bowl 2012 fer fram á Lucal Oil Stadium í Indianapolis.

Super Bowl 2012 fer fram á Lucal Oil Stadium í Indianapolis.

Úttekt Bloomberg er um margt áhugaverð. Hér verður stiklað á stóru og dregnir fram helstu punktar.

- Búið er að búa til sérstakt smáforrit, eða app eins og það er kallað í daglegu máli, fyrir iPhone og iPad þar sem hægt er að fylgjast með undirbúningi fyrir leikinn. Smáforritið kostar 2,99 dali.

- Leikurinn í kvöld fer fram í Indianapolis. Kostnaður við byggingu vallarins, Lucas Oil Stadium, sem hýsir leikinn var um 720 milljónir dala, fjármagnaður bæði af einkaaðilum og opinberum aðilum. Heimaliðið, Indianapolis Colts, lagði fram 100 milljónir dala en auk þess lögðu ríkisstjórn Indiana fylkis sem og borgastjórn Indianapolis fram nokkra fjármuni með því að hækka skatta á mat og drykki, bílaleigur, hótel og fleira – allt í þeim tilgangi að byggja leikvanginn.

- Liðin sem keppa um ofurskálina í kvöld, Giants og Patriots, hafa varið svipuðu fjármagni í leikmenn sína á leiktíðinni. Giants hafa varið um 63,7 milljónum dala í laun til leikmanna og Patriots um 62,3 milljónum dala.

- Skipuð var sérstök nefnd sem hefur unnið að undirbúningi leiksins í kvöld. Hún hefur varið u 25 milljónum dala í að búa til sérstakt Super Bowl þorp í kringum leikvanginn. Þorpið hýsir meðal annars tónlistarmenn, fjölmiðlamenn og fleiri aðilar sem koma að leiknum í kvöld.

- Yfirvöld í Indiana verja um 4 milljónum daga til að tryggja borgaralegt öryggi á leiknum. Kostnaðurinn verður innheimtur af skattgreiðslum hótela, veitingastaða og fleiri ferðaþjónustu- og afþreyingaraðila á svæðinu.

- PricewaterhouseCoopers spáir því að einkaneysla í Indianapolis verði um 150 milljónir dala aukalega vegna leiksins í kvöld. Aðrir greiningaraðilar hafa spáð mun hærri upphæðum.

- Liðin tvö fá meirihluta miðanna á leikinn og úthluta stærstum hluta þeirra til þeirra aðila sem eiga ársmiða (e. Season ticket) hjá liðunum. Miðarnir eru þó seldir gegn háu gjaldi og handhafar ársmiða þurfa að keppa um þá. Með því að leggja fram 20 þúsund dali geta stuðningsmenn Giants tryggt sér forkaupsrétt á miðunum og mögulega fengið miða miðsvæðis fyrir 700 dali. Með því að leggja fram 7.500 dali gefst þeim færi á að kaupa miða á svokölluðu B svæði fyrir 400 dali. Annars er algengasta miðaverð á leikinn á bilinu 800 – 1.200 dalir.

- Til eru sérstakar síður sem endurselja keypta miða (með löglegum hætti). Þar er hægt að kaupa miða á rúmlega 2 þúsund dali.

- Samtök verslunar og þjónustu í Bandaríkjunum áætla að 5,1 milljón ný sjónvörp seljist fyrir leikinn í kvöld. Þær tölur eru þó umdeildar og samtök smásala gera ekki ráð fyrir að selja svo mikið.

- Samkvæmt tölum Nevada Gaming Control Board, sem hefur yfirumsjón með rekstri spilavíta í Nevada fylki, námu veðmál tengd Super Bowl í fyrra um 87,5 milljónum dala og höfðu þá aukist um 5,8% á milli ára. Búist er við því að tölurnar hækki fyrir leikinn í kvöld. Samkvæmt mati Bloomberg er þó líklegra að veðmál tengd leiknum nemi um 10 milljörðum dala, ef með eru tali ólögleg veðmál út um allt land.

- Bókunarvefurinn Cheaphotels.org var saman verð á ódýrum hótelum í Indianapolis og nærliggjandi svæðum. Dæmi eru um að tvær nætur á ódýru hóteli, sem kosta öllu jafna um 40 dali á nóttina, kosti rúmlega 700 dali þessa helgina.

- Um helgina eru haldin fjölmörg partý víðsvegar um Indianapolis, t.d. á vegum Maxim, Playboy, ESPN og fleiri virtra aðila. Í þannig gleðskap eru iðulega frægir skemmtikraftar og tónlistarmenn sem koma fram. Miði í slíkt partý kostar á bilinu 500 – 1.800 dali. Þá eru ótalin partý sem haldin eru víðsvar um Bandaríkin í tilefni af Super Bowl leiknum.

- Talið er að neytendur í Bandaríkjunum verji um 11 milljörðum dala í ýmsan varning sem sérstaklega tengist Super Bowl, t.d. föt, mat, íþróttabúnað og fleira. Það er að meðaltali 64 dalir á hvern íbúa vestanhafs, samanborið við 60 dali í fyrra. Sem dæmi má nefna að um 700 milljónir dala verður varið í sérstök tilboð á veitingastöðum.

- Bandaríkjamenn munu borða um 1,25 milljarð kjúklingavængja í dag, á meðan leiknum stendur. Athygli vekur að verð á kjúklingavængjum hækkar iðulega rétt fyrir áramót þegar veitingastaðir vestanhafs eru að byrgja sig upp – fyrir þennan eina dag.

- Um 115 milljónir manna munu horfa á leikinn í kvöld, þ.e. innan Bandaríkjanna. NFL sjónvarpsstöðin, sem tryggði sér sýningarréttinn í ár, hefur þegar selt um 70 auglýsingapláss fyrir um 245 milljónir dala, eða 3,5 milljónir dala fyrir hvert pláss.

- Liðsmenn þess liðs sem sigrar í kvöld fá hver í sinn hlut 88 þúsund dali í bónus. Liðsmenn þess liðs sem tapar ganga þó ekki tómhentir frá  borði, því þeir fá um 44 þúsund dali hver. Þá fá liðsmenn, þjálfarar, stjórnendur og eigendur sigurliðsins veglegna hring í verðlaun. NFL deildin sjálf ver um 5 þúsund dölum í hvern hring.