Töluverð aukning virðist hafa verið á sölu sólarlandaferða hér á landi miðað við árið í fyrra og rímar það vel við bættan efnahag og aukna einkaneyslu. Í samtali við Andra Má Ingólfsson framkvæmdastjóra Heimsferða kom fram að sala ferða hjá þeim hafi aukist um 20% frá því í fyrra. Andri sagði þessa aukningu hafa komið ánægjulega á óvart enda hafi áætlanir gert ráð fyrir 5 til 8% aukningu. "Við erum afskaplega kát með þessa aukningu," sagði Andri Már. Helgi Jóhannsson framkvæmdastjóri Sumarferða sagðist einnig hafa orðið var við miklu meiri eftirspurn en í fyrra. "Það er meira og minna uppselt hjá okkur en við jukum framboðið um helming milli ára en það dugar engan veginn til. Þessi læti koma mér mjög á óvart enda hef ekki upplifað svona fyrr. Við erum ágætlega ánægð með þau viðbrögð sem við höfum fengið hjá neytendum enda var ferðaskrifstofan ekki opnuð fyrr en í fyrra," sagði Helgi. Hann sagðist skynja það að fólk hafi meira á milli handanna. "Við finnum enga aðra skynsamlega skýringu á þessari aukningu."

Í Viðskiptablaðinu í morgun kemur fram að ferðamynstur landans hefur breyst mikið á síðustu árum. Áður fyrr voru menn eingöngu í þriggja vikna ferðum til sólarlanda til að nýta ferðina en nú er það mikið á undanhaldi. Helgi sagði mikið algengara að fólk fari núna í tvær eða jafnvel einungis eina viku. "Það er ennþá algengara að fara í tvær vikur en eina viku sem var reyndar óhugsandi fyrir 5 árum síðan. Fólk fer í styttri en fleiri ferðir en áður," sagði Helgi. "Við erum með farþega sem að ferðast allt að fjórum sinnum með okkur á ári," sagði Andri Már.

Andri Már sagði Heimsferðir eiga auðvelt með að mæta sveiflum í eftirspurn. "Við höfum mikinn sveigjanleika hér til að bæta við ferðum og stækka og minnka samninga eftir þörfum," sagði Andri. Hann bætti við að það væri mikil samkeppni á markaðnum og sagði að það væri ekki síst vegna þess sem hann væri svo ánægður með aukninguna. "Það hefur náttúrulega verið mikil framboðsaukning hjá bæði Flugleiðum og Iceland Express og allt er þetta keppni um sömu farþegana."