Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að laun hafi hækkað um 0,5% að meðaltali í október frá fyrra mánuði og árshækkunin nemi 8,1% sem er óbreytt frá í september. Þar segir að á tólf mánuðum hafi kaupmáttur launa aukist um 3,1% og að hægt hafi á kaupmáttaraukningu launa að undanförnu sem má rekja meg til aukinnar verðbólgu á nýliðnum mánuðum.


Í þjóðhagsspá Greiningar frá september síðastliðnum var gert ráð fyrir 8,8% hækkun launa að meðaltali á árinu. Tólf mánaða hækkun launavísitölu hefur að meðaltali verið um 9,1% á þessu ári og því má reikna með að hækkun launa á árinu verði meiri en gert var ráð fyrir, segir í Morgunkorninu.