Töluverð lækkun varð á hlutabréfamörkuðum í Bandaríkjunum í dag. Nasdaq lækkaði um 2,45% og stendur vísitalan í 2417,59 stigum. Dow Jones lækkaði um 2,17% og Standard & Poors 500 vísitalan lækkaði um 2,49%. Markaðir sýndu rauðar tölur í allan dag og því lengur sem leið á daginn varð lækkunin meiri.

Helstu fréttir dagsins voru þær að eins og vb.is greindi frá fyrr í dag tilkynnti fjárfestingabankinn Citigroup um tam sem nemur 9,83 milljörðum dollara á fjórða fjórðungi. Til tapsins telst meðal annars afskriftir vegna undirmálslána (e. sub-prime) sem hljóða upp á 18,1 milljörðum dollara og 4,1 milljarður dollara vegna aukningar í kostnaði á neyslulánum til almennings, ef marka má frétt Wall Street Journal.

Þá var einnig tilkynnt að Citigroup myndi skera niður arðgreiðslur um 41%.

Citigroup lækkaði um 7% í dag og er gengið nú á 27,03 bandaríkjadali og hefur ekki verið lægra síðan í október 2002. Bankinn tilkynnti einnig að um 4.200 manns yrði sagt upp á næstunni.

Bloomberg fréttaveitan greinir frá því að tapið á hlutabréfum fyrstu þrjár vikur ársins nemi um 800 milljörðum bandaríkjadala. S&P 500 vísitalan hefur ekki verið lægri síðan í mars á síðasta ári og hefur ekki byrjað nýtt ár jafn illa síðan 1978.

Enginn endir á slæmum fréttum

Viðmælandi Bloomberg fréttaveitunnar sagði í dag að það virtist sem enginn endir væri á slæmum fréttum þessa dagana. Orkufyrirtæki lækkuðu nokkuð í dag eftir að olíuverð lækkaði um 2,30 bandaríkjadali. Í lok dags kostaði olíutunnan 91,90 dali. Þetta kom í kjölfar þess að olíumálaráðherra Saudi Arabíu sagði OPEC tilbúið að auka framleiðsluna á olíu. Bæði Chevron og Exxon lækkuðu í kjölfarið.

Eins og vb.is greindi einnig frá í dag seldi Merril Lynch hlut í fyrirtækinu fyrir 6,6 milljarða bandaríkjadali. Hlutabréf lækkuðu þó um 2,2 dali niður í 53,77 dali á hlut.

JP Morgan Chace lækkaði einni í dag um 4,9% og er gengi bankans nú 39,34 dalir á hlut. Deutsche Bank lækkaði mat sitt á JP Morgan og hvatti til kaupa á bréfum bankans.

Wells Fargo bankinn lækkaði um 5,1% í dag eftir að Friedman Billings Ramsey & Co mæltu með sölu í bankanum vegna versnandi afkomu bankans.

Apple tölvurfyrirtækið lækkaði um 5,9% í dag en miklar væntingar hafa verið gerðar til hinnar árlegu Macworld ráðstefnu sem byrjaði í dag í San Fransisco. Apple kynnti nýja létta og þunna fartölvu en einnig myndbanda leigu á netinu. Þetta olli nokkrum vonbrigðum þar sem búist var við „flottari og nýtískulegri græjum,” eins og viðmælandi WSJ komst að orði.

Smásala lækkaði í desember

Tilkynnt var í dag að smásöluverslun hefði verið með lægsta móti frá árinu 2002 síðastliðin desember í Bandaríkjunum en hún lækkaði um 0,4% og hefur farið lækkandi síðan í júní á síðasta ári. Lækkunin var mest á byggingarvörum eða 2,9% og hefur ekki lækkað jafn mikið síðan í febrúar árið 2003. Það er í takt við minnkandi sölu fasteigna. Að sama skapi lækkaði smásala á fatnaði og raftækjum einna mest.

Sá hluti sem snýr að smásöluverslun í S&P 500 vísitölunni lækkaði um 2,2% í dag en þar á meðal eru fyrirtæki á borð við Target, Lowe’s og Tiffany & Co.

Smásöluverslun jókst þó um 4,2% þegar litið er á árið 2007 í heild en Bloomberg fréttaveitan greinir frá því að það sé lægsta hækkun í fimm ár. Viðmælandi Bloomberg telur að neysluvísitalan eigi eftir að lækka hægt en ekki falla og muni að öllum líkindum hækka aftur seint á þessu ári eða í byrjun þess næsta.

Yfirhagfræðingur Lehman Brothers, Ethan Harris segir að þetta sé í takt við það sem allir hafi beðið eftir. Hann segir að það sé eðlilegt að neysluvísitölur fari niður eftir erfiðleika á fjármálamörkuðum. „Það lítur út fyrir að neytendur séu nú að bregðast við, við höfum beðið eftir því að erfiðleikar á húsnæðis og fjármálamörkuðum myndu smita út frá sér í smásölu,” sagði hann í samtali við Bloomberg.