Hlutabréf lækkuðu í Asíu í dag og voru það helst bíla- og tækniframleiðendur sem leiddu lækkanir dagsins að sögn Bloomberg fréttaveitunnar en áhyggjur af frekari lækkun Bandaríkjadals og minni eftirspurn frá Bandaríkjunum eru sagðar helstu ástæðurnar.

Þannig lækkaði bílaframleiðandinn Honda Motor um tæp 4% en félagið fær um helming pantana sinna frá Bandaríkjunum.

Þá lækkaði Samsung um 3,4% en rafmagnstækjaframleiðandinn selur um helming varning sinn til Bandaríkjanna.

Lækkunin í dag er sú fyrsta í fimm daga en MSCI Kyrrahafs vísitalan lækkaði um 2% í dag eftir að hafa hækkað um 4% síðustu fjóra daga.

Í Japan lækkaði Nikkei vísitalan um 2,5% sem er mesta lækkun á einum degi frá því um miðjan apríl. Mest var lækkunin í Kína en þar lækkaði CSI 300 vísitalan um 4%.

Í Hong Kong lækkaði Hang Seng vísitalan um 2%, í Singapúr lækkaði Straits vísitalan um 1,7% og í Ástralíu lækkaði S&P 200 vísitalan um 1,4%.