Hlutabréf lækkuðu í Evrópu í dag og segir Reuters fréttastofan það fyrst og fremst stafa af áhyggjum fjárfesta yfir efnahagslífi Bandaríkjanna.

Það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins. Sem dæmi má nefna að svissneski bankinn UBS lækkaði um 6,4%, Royal Bank of Scotland lækkaði um 5,2 og Barcleys lækkaði um 4,8% samkvæmt frétt Reuters um lokun markaða.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði um 1,9% og hefur ekki verið lægri í sjö vikur eða frá því um miðjan apríl. Vísitalan lækkaði um 3,7% í vikunni.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 1,5%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 2,3% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 2%.

Þá lækkaði CAC 40 vísitalan í París um 2,3% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 2,4%.

OMXC vísitalan í Kaupmannahöfn lækkaði um 1,2% en í Osló hækkaði hins vegar OBX vísitalan um 1,6%.