Búist er við því að töluverð uppbygging á íbúðahúsnæði verði á svæði vestanmegin við Kringlumýrabraut á næstu árum. Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, fjallaði um þetta í ræðu sem hann hélt á morgunfundi Reykjavíkurborgar í morgun.

„Þar var auðvitað bara alkul en núna eru mörg og býsna stór verkefni komin í gang, þar sem víða er lögð áhersla á litlar og meðalstórar ibúðir,“ segir Dagur í samtali við VB.is. Hann segir að margar íbúðirnar sem byggðar verði séu ætlaðar í útleigu. Hann nefnir sem dæmi 140 íbúðir á Lýsisreit. Þá séu fyrirhugaðar 63 íbúðir á Mýrargötu 26. Ennfremur sé verið að klára 300 stúdentaíbúðir í Vatnsmýrinni. Þá nefnir hann dæmi af íbúðum Í Brautarholti, á Hampiðjureit og í Einholti/Þverholti þar sem Búseti mun byggja. Þá sé verið að skipuleggja 500 íbúða byggð á Hlíðarenda, í nágrenni við Valsheimilið. „Síðan eru býsna margir reitir í undurbúningi sem eru ekki komnir jafn langt á framkvæmdastigi,“ segir Dagur.

Dagur bendir á að í ítarlegri könnun sem var unnin fyrir Reykjavíkurborg árið 2011 komi í ljós að eftirspurn sé eftir sex þúsund nýjum íbúðum í mið- og vesturhluta Reykjavíkur. „Ég myndi telja óvarlegt að svara allri þessari eftirspurn en ljóst að hún hefur hlaðist upp á undanförnum árum,“ segir Dagur.