Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hækkaði í dag um 0,38% og endaði í 1552,19 stigum. Gengi bréfa Nýherja, Haga og Vodafone hækkaði mest en mesta veltan var með viðskipti í bréfum Icelandair og HB Granda en gengi síðarnefnda fyrirtækisins lækkaði mest í viðskiptum dagsins. Greint var frá því fyrr í dag að erlendir aðilar keyptu hlutabréf í Kauphöllinni fyrir um 700-800 milljónir króna í gær. Líklegt þykir að um svipaðar hreyfingar sé að ræða í dag frá erlendum aðilum þótt það hafi ekki fengist staðfest.

Þá hækkaði gengi Nýherja um 4,22%, Vodafone um 2,46% og Haga um 2,11% en gengi HB Granda lækkaði um 2,64% í 606 milljarða króna veltu. Mesta veltan var með bréf í Icelandair eða um 663 milljónir. Í dag tilkynntu rússnesk stjórnvöld að Íslandi hefur verið bætt á lista yfir lönd sem mega ekki flytja inn matvæli til Rússlands. Í kjölfarið sendi HB Grandi frá sér tilkynningu þar sem greint var frá því að viðskiptabannið gæti lækkað tekjur félagsins um 10-15 milljónir evra á ársgrundvelli.

8,87 milljarða velta með skuldabréf

Þó nokkur velta var einnig í viðskiptum með skuldabréf en hún nam samtals 8,87 milljörðum króna í dag. Skuldabréfavísitala GAMMA hækkaði um 0,2% í dag í 8,6 ma. viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,2% í 1,5 ma. viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,3% í 7,1 ma. viðskiptum.