Allt útlit er fyrir að verð á minkaskinnum hækki um að minnsta kosti 10 prósent að meðaltali á uppboði Kopenhagen Fur sem nú stendur yfir. Er sagt frá þessu á vef Bændablaðsins, bbl.is. Hækkunin eftir þriggja daga uppboð er á bilinu 5 til 21 prósent, misjafnt eftir litum.

Hefur bbl.is það eftir Einari Einarssyni, landsráðunaut í loðdýrarækt að aldrei hafi annar eins fjöldi kaupenda sótt uppboð af þessu tagi. Mættir séu um 750 kaupendur, þar af 450 frá Kína og Hong Kong. Um fimm milljónir minkaskinna eru til sölu á uppboðinu og segir Einar stemminguna vera gríðarlega. Talsverðt magn íslenskra skinna er boðið til sölu á uppboðinu.