Fjárfestar í stærstu skráðu fyrirtækjum Svíþjóðar töpuðu töluverðum fjármunum í síðustu viku þegar sænska OMXS30 hlutabréfavísitalan lækkaði um 4%. Er þetta mesta lækkun vísitölunnar á vikutímabili í eitt og hálft ár. Lækkunin þurrkaði út markaðsvirði að andvirði 180 milljörðum sænskra króna eða um 2.304 milljörðum íslenskra króna.

OMXS30 vísitalan samanstendur af þeim 30 fyrirtækjum sem mest velta er með í Kauphöllinni í Stokkhólmi. Samkvæmt frétt Bloomberg kom lækkunin til af því að vonbrigði voru með uppgjör fyrirtækja á borð við Ericsson, Nordea Bank og Atlas Copco á öðrum ársfjórðungi. Féll gengi Ericson um 16%, Atlas Copco um 6,9% og Nordea Bank um 5,2 eftir að fyrirtækin birtu milliuppgjör.

Af þeim 27 fyrirtækjum sem eru innan vísitölunnar féllu 17 þeirra í verði eftir að uppgjör annars ársfjórðungs birtist. Lækkuðu 11 þeirra um meira en 3%.