*

laugardagur, 29. janúar 2022
Innlent 27. ágúst 2020 13:36

Töluvert tap Almenna leigufélagsins

Matsbreytingar komu til með að lita afkomu Almenna leigufélagsins, líkt og hjá öðrum fasteignafélögum, Alma hefur selt 52 íbúðir á árinu.

Ritstjórn
María Björk Einarsdóttir er framkvæmdastjóri Almenna leigufélagsins.
Haraldur Guðjónsson

Almenna leigufélagið, einnig þekkt sem Alma, tapaði 281 milljón króna á fyrri helmingi ársins en félagið hagnaðist um 12,8 milljónir á sama tímabili árið 2019. Rekstrarhagnaður félagsins fyrir matsbreytingar og afskriftir lækkaði um 5,6% milli ára og nam 748 milljónum á fyrri hluta ársins 2020. Þetta kemur fram í nýbirtu árshlutauppgjöri félagsins.

Matsbreytingar fjárfestingareigna skýra að mestu leiti breytta afkomu. Matsbreyting félagsins á fyrri hluta árs 2020 reyndust neikvæðar um 424 milljónir króna en voru jákvæðar um 62 milljónir á sama tíma fyrir ári. Afskrifir breytast lítillega milli ára og nema 18 milljónum á fyrri hluta árs. Sjóðstreymi félagsins reyndist jákvætt á fyrri hluta árs um 438 milljónir króna, að miklu leiti vegna söluverðs fjárfestingaeigna sem nær fjórfaldaðist milli tímabila og nam 1.237 milljónum.

Söluhagnaður félagsins nam 227 milljónum en 105 milljónum fyrir ári en endurskipulagning á eignasafni félagsins stendur yfir. 52 íbúðir voru seldar á fyrri hluta árs og átti félagið 1.178 í lok annars ársfjórðungs, samanborið við 1.232 fyrir ári síðan. Félagið hefur meðal annars brugðist við faraldrinum með því að færa allar skammtímaleigueignir félagsins tímabundið í hefðbundna langtímaleigu, um er að ræða 114 íbúðir.

Heildareignir félagsins hafa lækkað um milljarð króna og námu í lok annars ársfjórðungs 46,6 milljörðum króna. Þar af eru 44,4 milljarðar vegna fjárfestingareigna. Skuldir félagsins hafa lækkað lítillega á árinu og nema nú 34,2 milljörðum. Eigið fé nemur 12,4 milljörðum og eiginfjárhlutfall Almenna leigufélagsins er 26,6%, nær óbreytt það sem af er ári.

María Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Almenna leigufélagsins:

„Rekstur Almenna leigufélagsins gekk vel á tímabilinu og er þar helst að þakka öflugri uppbyggingu undanfarin ár og mun lægri fjármagnskostnaði, ásamt endurskipulagningu á eignasafni félagsins sem nú stendur yfir. Vel hefur gengið að selja óhagkvæmar eignir, á sama tíma og hlúð er að hagkvæmari kjarnaeignum. 

Þannig voru 52 íbúðir seldar á tímabilinu og taldi eignasafnið 1.178 íbúðir þann 30. júní 2020 samanborið við 1.232 íbúðir þann 30. júní 2019. Þrátt fyrir fækkun íbúða, og þá staðreynd að skammtímaleigurekstur félagsins stöðvaðist í kjölfar heimsfaraldurs Covid-19, lækkaði EBITDA einungis um 45 m.kr. frá fyrra ári og handbært fé frá rekstri jókst um 182 m.kr.

Eðli málsins samkvæmt hafði heimsfaraldurinn, með tilheyrandi hruni í ferðaþjónustu, veruleg áhrif á skammtímaleigustarfsemi félagsins. Þannig var matsbreyting fjárfestingareigna neikvæð sem nam 424 m.kr. á tímabilinu og má rekja til breytingar á skammtímahorfum í rekstri hótelíbúða samstæðunnar. 

Til þess að lágmarka tjón samstæðunnar vegna þessa var gripið til þess að færa allar skammtímaleigueignir félagsins tímabundið í hefðbundna langtímaleigu. Um var að ræða 114 íbúðir og voru þær allar orðnar tekjuberandi undir lok tímabilsins utan tveggja íbúða í söluferli og fimm íbúða í framkvæmdum. Gerðar hafa verið ráðstafanir til þess að hægt sé að færa 70 þeirra aftur í skammtímaleigu sumarið 2021, ef aðstæður leyfa.“