Tölvuhakkarar sem taldir eru starfa fyrir rússnesk stjórnvöld komust inn á hluta tölvukerfis Hvíta hússins fyrir nokkrum vikum, samkvæmt heimildarmönnum Washington Post innan Hvíta hússins.

Tímabundið varð truflun á starfsemi Hvíta hússins vegna þessa. Ekkert var skemmt í tölvuárásinni og engar vísbendingar eru enn sem komið er um að hökkurunum hafi tekist að komast inn á lokaðan hluta kerfisins.

Engar upplýsingar eru opinberlega gefnar út um það hvort gögnum var stolið í árásinni eða hverjir stóðu á bak við hana.