Tölvuárás var gerð á vefsíðu Vodafone í nótt. Vefsíðunni var lokað vegna árásarinnar til að tryggja öryggi síðunnar eins og það var orðað í tilkynningu frá Vodafone. Í morgun var talið að engar trúnaðarupplýsingar hafi komist í hendur þeirra sem gerðu árásina en svo virðist sem það sé ekki rétt.

Hakkarinn hefur birt á Twitter síðu sinni gögn um notendur Vodafone. Meðal annars eru þar mikill fjöldi sms skilaboða. Eftir að þetta kom í ljós sendi Vodafone frá sér tilkynningu þar sen beðist var velvirðingar á því að tilkynnt hafi verið að engar trúnaðarupplýsingar hafi komist til óviðeigandi aðila.

„Svo virðist sem að hakkari sem réðist á vefsíðu Vodafone í nótt hafi náð í viðkvæm gögn ólíkt því sem talið var í fyrstu. Unnið er að því að meta heildarumfang málsins með færustu gagna- og veföryggissérfræðingum landsins.Vodafone lítur málið afar alvarlegum augum og mun veita upplýsingar eftir því sem þær liggja fyrir. Fyrirtækið biðst velvirðingar á því að í upphaflegri tilkynningu hafi komið fram að engar trúnaðarupplýsingar hafi komist til óviðeigandi,“ segir í tilkynningu frá Vodafone.