Fyrir fáeinum vikum varð Steve Ballmer, forstjóri Microsoft, fyrir þeirri óskemmtilegri reynslu að verða skotmark eggjakasts þegar hann hélt fyrirlestur í háskólanum í Búdapest í Ungverjalandi.

Eggjakastarinn var ungur námsmaður sem taldi hentugast að sýna andúð sína á bandaríska tölvurisanum með þessum vafasama hætti.

Þó að skammt sé um liðið hefur nú svissneska margmiðlunarfyrirtækið Cultimedia sett á markað netleik sem gerir hverjum sem er kleift að feta í fótspor námsmannsins annars vegar og Ballmer hins vegar. Leikurinn heitir vitanlega Egg Attack og geta leikmenn valið hvort hlutverkið þeir leika, að því er fram kemur á fréttavef ComOn.

Heitir önnur persónan „Njörðurinn eggkastandi” og hin „Eggjahausinn Ballmer”, og er þá vísað til þess að forstjórinn er ekki sérlega hærður.

Leikmönnum gefst síðan 46 sekúndur til að skjóta eins mörgum eggjum að Ballmer og þeir geta, eða, hafi þeir kosið að taka á sig gervi forstjórans, að víkja sér undan eggjakastinu eftir megni.

Ekki er greint frá viðbrögðum Ballmers við leiknum.