Jólin eru orðin að vertíð hjá tölvuleikjaframleiðendum ekki síður en kvikmyndaframleiðendum. Tölvuleikjafyrirtæki keppast um að koma sínum leikjum út fyrir jól, þótt það sé aðeins örfáum dögum fyrir aðfangadag.

Í ár kemur nýr fjölspilaraleikur í Star Wars heiminum út þann 20. desember og í ljósi þess að framleiðandinn, Bioware, er þekktur fyrir gæðaleiki og einnig því hve vel þekkt Star Wars merkið er, má gera ráð fyrir því að leikurinn seljist vel.

Nýlega komu svo út nýjar útgáfur af stærstu skotleikjunum, Battlefield 3 og Modern Warfare 3, og hafa þær þegar selst í milljónum eintaka. Þótt enn séu tveir mánuðir til jóla er ekki ólíklegt að eintök af þessum leikjum endi í jólapökkum tölvuleikjaunnenda.