Íslenski tölvuleikjaframleiðandinn Plain Vanilla hefur gert samning við útgáfufyrirtækið Chillingo um dreifingu á nýjum leik, sem hannaður er fyrir iPad og iPhone. Leikurinn, sem ber heitið Moogies, er hugsaður fyrir börn á aldrinum 2-6 ára, en framkvæmdastjóri Plain Vanilla, Þorsteinn Baldur Friðriksson, segir skort á vönduðum leikjum fyrir þennan aldurshóp.

„Ég eignaðist iPad spjaldtölvu þegar ég var í námi í London og komst að því mjög fljótlega, eins og líklega flestir foreldrar, að börn hafa gríðarlega gaman að þessum græjum. Mér þykir hins vegar leikir, einkum þeir sem ætlaðir eru handa yngri börnum, almennt ekki nógu góðir. Oft eru auglýsingar í leikjunum og þá eru margir leikir byggðir upp þannig að ætlast er til þess að spilari kaupi hluti í leiknum fyrir alvöru peninga. Þetta er ekki sú leið sem við vildum fara, heldur bjóða upp á skemmtilegan, faglega unninn og þroskandi leik.“

Samningur Chillingo og Plain Vanilla mun gera markaðssetningu á leiknum í iTunes verslun Apple mun auðveldari og áhrifaríkari, að sögn Þorsteins, en öllu máli skipti að leikurinn sé á áberandi stað í versluninni. Hann segir að Chillingo hafi mikla reynslu á þessu sviði, en hinn margfrægi leikur Angry Birds er einn þeirra leikja sem Chillingo hefur dreift.