*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Erlent 14. júlí 2021 11:59

Tölvu­leikur frá 1996 seldist á 200 milljónir

Óopnað eintak af tölvuleiknum Super Mario 64 frá árinu 1996 seldist nýverið á um 1,5 milljónir dollara.

Snær Snæbjörnsson
Super Mario hefur notið töluverðra vinsælda síðan hann kom fyrst úr fyrir hartnær fjórum áratugum.
Aðsend mynd

Óopnað eintak af tölvuleiknum Super Mario 64 frá árinu 1996 seldist nýverið á 1,5 milljónir dollara, um 186 milljónir króna, á uppboði, sem er það mesta sem eintak af tölvuleik hefur verið selt á. BBC greinir frá.

Metið sem Super Mario 64 sló var einungis nokkurra daga gamalt. Á föstudaginn seldist upprunalegt eintak af leiknum The Legend of Zelda frá árinu 1987 á 108 milljónir króna.

Báðir leikirnir hafa verið endurútgefnir fyrir nýjustu leikjatölvu Nintendo, Nintendo Switch, og eru leikirnir sjálfir því ekkert sérstaklega sjaldgæfir. Frekar ber að líta á leikina sem safngripi, á svipaðan hátt og sjaldgæf frímerki eða fótboltaspil.

Leikurinn er einna helst talinn merkilegur fyrir þær sakir að þetta var í fyrsta sinn sem vinalegi pípulagningamaðurinn Maríó tók stökkið úr tvívídd yfir í þrívídd. 

Eintakinu var gefið 9.8 A++ í einkunn af Wata, sem metur, verðleggur og gefur eintökum af tölvuleikjum einkunn eftir ástandi. Einkunnin þýðir að eintakið er svo gott sem í fullkomnu ástandi og innsiglið óskaddað og eins og nýtt. Há einkunn þýðir þó ekki endilega að leikurinn verði seldur á háu verði á uppboði. Í sama uppboði seldist eintak af sama leik með einkunnina 9.6 A++ á 1,6 milljónir króna. 

Stikkorð: Super Mario tölvuleikir