Norska tölvuleikjafyrirtækið Funcom setti á markað í dag nýjasta tölvuleikinn. Sá heitir The Secret World og geta þeir sem spila leikinn sett sig í spor ýmissa goðsagnakenndra kvikinda, svo sem vampíra, sem etja saman kappi í baráttunni á milli góðra og illra afla.

Beðið hefur verið með talsverðri eftirvæntingu eftir leiknum en prófanir á honum hófust í vor, eins og Viðskiptablaðið hefur áður greint frá.

Í umfjöllun norska miðilsins E24 kemur fram að þótt norskir fjölmiðlar hafi lofað leikinn í hástert þá hafi það ekki endurspeglast í gengi hlutabréfa fyrirtækisins á markaði. Það hækkaði lítillega í morgun en sneri svo af þeirri braut eftir því sem leið á daginn og endaði í 5,75% mínus. Þetta var sömuleiðis í öfugu samræmi við þróunina á norska hlutabréfamarkaðnum en norska aðalvísitalan hækkaði um 2% í dag.

Funcom var að hluta í eigu Íslendinga

Straumur - Burðarás fjárfestingarbanki keypti 5,5% hlut í Funcom í mars árið 2006 og var hann á sínum tíma metinn á tæpar 800 milljónir króna. Gengi hluta Funcom, sem skráð er í norsku kauphöllina í Osló, stóð á þessum tíma í kringum 31,5 norskum krónum á hlut. Það fór hæst í 53 norskar krónur á hlut í þessum mánuði fyrir fjórum árum, í maí árið 2008. Eftir það lækkaði það snögglega samhliða því sem vandræðin á alþjóðlegum fjármálamörkuðum jukust og var komið niður í 3 krónur um áramótin sama ár. Það stóð við lokun markaðarins í dag í 16,4 norskum krónum á hlut.

Samkvæmt upplýsingum frá ALMC, þrotabúi Straums, seldi félagið alla hluti sína í Funcom á árunum 2008 til 2009 og á nú enga  hluti í félaginu.