Tölvumiðlun fagnar í ár 30 ára afmæli en fyrirtækið var stofnað árið 1985 og er eitt elsta hugbúnaðarfyrirtæki landsins, en fyrirtækið var jafnframt meðal 577 framúrskarandi fyrirtækja Creditinfo á síðasta ári og sat þar í 274. sæti.

Helsta afurð fyrirtækisins er H3 heildarlausn í mannauðsmálum, en um þessar mundir er starfsfólk Tölvumiðlunar í óða önn að uppfæra í nýja kynslóð hjá notendum. Art Schalk, sviðsstjóri sölu- og markaðssviðs Tölvumiðlunar, segir að jafnframt sé unnið að nýþróun í samstarfi við viðskiptavini og aukin virkni og margar nýjungar séu á teikniborðinu.

Spurður hvernig Tölvumiðlun hefur tekist að viðhalda stöðugum rekstri síðustu ár segir Art: „Stjórnendur Tölvumiðlunar vinna eftir faglegum rekstraráætlunum þar sem góð eftirfylgni tryggir að tekjur félagsins þróast upp á við og kostnaður helst innan fyrirfram ákveðinna marka. Fjárfestingar eru vel ígrundaðar og eingöngu fjárfest í tækifærum sem eru fyrirtækinu og hundruðum viðskiptavinaþess til framdráttar.“

Art segir að gert sé ráð fyrir miklum vexti í fjölda viðskiptavina sem velji H3 með fyrirkomulaginu „hugbúnaður sem þjónusta“ þar sem mannauðslausnin er hýst í skýinu og notandinn þarf ekki að leggja til vélbúnað né hafa áhyggjur af uppfærslum og afritun.

„H3 er staðlað kerfi sem hentar óbreytt þörfum flest allra fyrirtækja á íslenskum markaði. Lausnin er þróuð hérlendis fyrir innlendan markað en horft er til alþjóðlegra strauma í stjórnun og viðskiptafræðum. Tölvumiðlun hefur alla tíð boðið H3 heildarlausnina í áskrift þar sem viðskiptavinir borga mánaðarleg þjónustu- og uppfærslugjöld. Nýjasti valmöguleiki í áskrift er launavinnsla,“ segir Art.