Tölvumiðlun fagnar í dag 25 ára afmæli en fyrirtækið var stofnað árið 1985 og er eitt elsta hugbúnaðarfyrirtæki landsins.

Í tilkynningu frá Tölvumiðlun kemur fram að fyrirtækið hafi vaxið og dafnað vel á þessum 25 árum þrátt fyrir mikla og harða samkeppni á upplýsingatæknimarkaði.

„Tilgangur fyrirtækisins er þróun, selja og þjónusta mannauðslausnir s.s launakerfi, greiningarkerfi og mannauðsupplýsingakerfi fyrir fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög,“ segir í tilkynningunni.

Árið 1987 keypti Tölvumiðlun fyrirtækið Huga hf. og viðskiptasambönd þess. Helsta söluvara Huga hf. var launakerfi og þjónustusamningar því tengdu. Fram kemur að þróun launakerfisins skilaði mjög góðum árangri og árið 1990 gerði Tölvumiðlun samning við 24 sjúkrahús um nýja gerð launakerfis sem síðar varð að útbreiddasta launakerfi landsins, H-laun.

Helstu viðfangsefni Tölvumiðlunar eru á sviði launavinnslu og mannauðsmála eins og áður segir en þekktustu afurðir félagsins eru H-Laun launakerfið og H3 sem er stöðluð heildarlausn í mannauðsmálum sem flest af stærstu fyrirtækjum landsins nota við launaútreikninga.

Tölvumiðlun annast einnig sérsmíði hugbúnaðar fyrir fyrirtæki og stofnanir, auk þess að annast rekstur tölvukerfa, neta og vinnustöðva fyrir ýmsa aðila með rekstrarþjónustu.

Í tilkynningunni segir að flest sveitarfélög landsins noti SFS Fjárhagskerfi Tölvumiðlunar sem sérsniðið er að þörfum þeirra. Félagið er sölu- og þjónustuaðili á myndgreiningarkerfum frá Carestream  sem notað er á röntgendeildum stærstu sjúkrahúsa landsins.

„Framtíðin er björt hjá Tölvumiðlun þar sem tækninni fleytir fram og sífellt verða til nýjungar sem nýtast landi og þjóð á tímum sem þessum,“ segir í tilkynningunni að lokum.