Doug Engelbart, maðurinn sem fann upp tölvumúsina, er látinn, 88 ára að aldri. Engelbart þróaði tækið á 7. áratug síðustu aldar og fékk einkaleyfi löngu áður en tölvumúsin naut almennra vinsælda.

BBC greinir frá andláti uppfinningamannsins. Hann fæddist árið 1925 í Portland í Bandaríkjunum. Engelbart var rafmagnsverkfræðingur að mennt, lauk doktorsnámi frá Kaliforníuháskóla og starfaði meðal annars fyrir NASA.

Engelbart kynnti músina fyrst til leiks árið 1968. Hann hagnaðist aldrei verulega á uppfinningu sinni, þrátt fyrir ótrúlegar vinsældir tölvumúsarinnar. Einkaleyfið á hugmyndinni rann út árið 1987, áður en músin náði miklum vinsældum.