TölvuMyndir hf. hafa keypt hlutafé Flugleiða og Burðaráss í Skyggni hf. og eiga nú félagið að öllu leyti. TölvuMyndir, Burðarás og Flugleiðir áttu fyrir kaupin þriðjungshlut hver í Skyggni. Með kaupunum verður Skyggnir hluti af samstæðu TölvuMynda og nálgast nú velta samstæðunnar fjóra milljarða króna. Friðrik Sigurðsson, forstjóri TölvuMynda, segir að þetta sé í samræmi við stefnu félagsins, það er að stækka verulega m.a. með yfirtöku á hlutdeildarfélögum.

"Við stækkuðum mjög einstakar einingar í fyrra, meðal annars með stækkun félaga á heilbrigðissviði en einnig á fleiri sviðum," segir Friðrik í samtali við Viðskiptablaðið í dag. Dótturfélag Tölvumynda, Maritech sem starfar á sjávarútvegssviði, hefur til dæmis verið að stækka með yfirtökum í Chile og Bandaríkjunum. "Þetta er í takti við það sem við höfum verið að gera, að gera Tölvumyndir að stóru alþjóðlegu félagi. "

Starfsemi TölvuMynda er skipt í sex kjörsvið undir merkjum móðurfélagsins en TölvuMyndir eru alþjóðlegt hugbúnaðar- og þjónustufyrirtæki á sviði upplýsingatækni. Kjörsviðin eru: heilbrigðissvið, sjávarútvegssvið, fjármálasvið, orkusvið, flutningssvið og rekstrarsvið. Skyggnir, sem TölvuMyndir hafa nú eignast að fullu, starfar á rekstrarsviði, býður hýsingu og rekstur tölvu- og upplýsingakerfa og kerfisveitu. Skyggnir er með starfsstöðvar í Kópavogi, á Akureyri, í Bandaríkjunum og Hollandi. Þá er Tölvusmiðjan á Austurlandi 50% í eigu fyrirtækisins og starfar náið með Skyggni. Önnur félög innan samstæðu TölvuMynda eru: Theriak, Libra, Vigor og Origo.

Tölvumyndir eru í dag með starfsemi í um 12 löndum en Friðrik segir að enn sé unnið að skráningu Tölvumynda í Kauphöll Íslands.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.