Ákveðið hefur verið að breyta nafni TölvuMynda í TM Software vegna mikillar aukningar í starfsemi félagsins erlendis, að því er fram kemur í tilkynningu félagsins. Fram til þessa hefur starfsemi og ímynd TölvuMynda hf. verið byggð upp sem fjölskylda félaga sem starfa á skilgreindum kjörsviðum. Dótturfélögin Libra, Maritech, Origo, Skyggnir, Theriak og Vigor hafa hvert um sig einbeitt sér að rekstri á skilgreindum sviðum undir eigin merkjum.

Á undanförnum árum hafa TölvuMyndir lagt aukna áherslu á verkefni erlendis. Á síðasta ári voru m.a. opnaðar starfsstöðvar í Hollandi og Þýskalandi vegna aukinna verkefna félagsins á sviði heilbrigðistengdrar upplýsingatækni. Starfar félagið þá í alls 12 löndum og þjónar rúmlega 1.500 viðskiptavinum í 20 löndum. Á þessu ári er gert ráð fyrir að um helmingur af tekjum félagsins komi erlendis frá.

Erlendis hefur starfsemi félagsins verið markaðssett undir nafninu TM Software. Til að einfalda markaðssetningu félagsins hefur verið ákveðið að taka upp eitt nafn. TölvuMyndir ásamt dótturfélögunum Libra, Origo, Skyggni, Theriak og Vigor munu kynna sig undir merkjum eins félags, þ.e. TM Software. Nafni Maritech verður ekki breytt. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á þjónustu- eða vöruframboði TM Software. Merki félagsins og áhersla þess á sölu eigin lausna á tilteknum kjörsviðum verða áfram óbreytt.

Friðrik Sigurðsson, forstjóri TM Software, segir að félagið hafi þegar náð góðum árangri á sínu sviði á síðustu árum. "Erlendis hefur megináhersla verið lögð á uppbyggingu á sviði sjávarútvegs og hefur Maritech náð góðum árangri með sölu á WiseFish-lausnum fyrir sjávarútveg. Á sviði heilbrigðistengdrar upplýsingatækni hafa Theriak-lausnir náð athyglisverðum árangri, meðal annars í Þýskalandi. Hérlendis er TM Software einnig leiðandi á sínum sviðum. Libra fjármálalausnir eru í notkun hjá helstu fjármálafyrirtækjum auk þess sem kerfin eru komin í notkun erlendis. Origo er leiðandi á sviði sérhæfðra hugbúnaðar- og veflausna og Vigor er leiðandi í hugbúnaðarlausnum fyrir veitufyrirtæki. Þá er Skyggnir stærsta sérhæfða fyrirtækið í rekstri upplýsingakerfa hérlendis og þegar farið að vinna að ýmsum verkefnum erlendis."

Friðrik segir að Ísland sé þó enn stærsti markaður félagsins og sá markaður þar sem lausnir hafi þróast í nánu samstarfi við kröfuharða viðskiptavini. "Þrátt fyrir mikinn vöxt erlendis er ekki ætlunin að draga úr starfsemi TM Software hér á landi."

TM Software var stofnað árið 1986. Velta félagsins var um 3.500 milljónir árið 2004. Starfsmenn eru um 400. Félagið hefur vaxið mjög á undanförnum árum og er eitt af stærstu fyrirtækjum í upplýsingatækni hérlendis. TM Software leggur áherslu á þróun, sölu og þjónustu á eigin hugbúnaði og heildarþjónustu til viðskiptavina í samstarfi við helstu upplýsingatæknifyrirtæki heims, svo sem Microsoft, IBM, Oracle, CA og Swisslog. Þá hefur TM Software í fjórgang hlotið viðurkenningu sem eitt af 500 framsæknustu fyrirtækjum í Evrópu og hlotið viðurkenninguna "Microsoft Gold Certified" frá Microsoft.