Tölvupóstsamskipti fyrrum forstjóra Vísa og Eurocard, þeirra Halldórs Guðbjarnarsonar og Ragnars Önundarsonar, sýna hvernig þeir skiptust á upplýsingum um verðskrá og gengi félaganna með það að markmiði að takmarka samkeppni á milli þeirra. Óskað er eftir gagnkvæmu samkomulagi og beðið um að tölvupóstum sé eytt samdægurs. Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld.

Um það leyti sem Kortaþjónustan var að hefja starfsemi á Íslandi, í samkeppni við Visa og Eurocard, óskuðu forsvarsmenn fyrirtækisins eftir aðgangi að kerfi Fjölgreiðslumiðlunar, sem stofnað var sérstaklega til að auðvelda aðgang að kortamarkaðnum. Þar í stjórn sátu hins vegar forstjórar bæði Visa og Eurocard. Forstjóri Fjölgreiðslumiðlunar, Logi Ragnarsson, sendi beiðnina frá Kortaþjónustunni til bæði Ragnars og Halldórs.

Í Kastjósi kom fram að þá hafi í kjölfarið hafist vinna við að setja nýjar reglur hjá Fjölgreiðslumiðlun sem þrengdi mjög að Kortaþjónustunni. Gögn málsins bera það með sér að Ragnar Önundarson hafi átt frumvkæði að því að setja reglurnar og sýndi Kastljós tölvupóst frá Ragnari þar sem drög að þessum reglum var að finna. Ekki er ljóst samkvæmt Kastljósi hvort þessar reglur tóku gildi.

Þrýsti á Alþingi

Þessu til viðbótar sendi Ragnar Önundarson, forstjóri Eurocard, viðskiptanefnd Alþingis bréf þegar verið var að endurskoða lög um verðbréfa- og fjármálafyrirtæki. Þar fór hann fram á að sett yrði í frumvarpið skilyrði um að fyrirtæki sem stunduðu kortaviðskipti hér á landi hefðu einnig leyfi til lánastarfsemi á Íslandi. Þar sem móðurfélag Kortaþjónustunnar var erlent hefði slíkt skilyrði sett fyrirtækinu stólinn fyrir dyrnar. Í Kastljósi kom fram að viðskiptaráðherra hefði eftirá sett reglugerð sem breytti því.

Halldór og Ragnar eru hættir í sínum störfum en Ragnar er í stjórn Framtakssjóðs Íslands fyrir hönd Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Logi Ragnarsson er enn forstjóri Fjölgreiðslumiðlunar.