Hlutabréf hækkuðu í Bandaríkjunum í dag en það voru tækni- og orkufyrirtæki sem leiddu hækkun dagsins.

Nasdaq hækkaði um 0,91%, Dow Jones um 0,73% og S&P 500 hækkaði um 0,83%.

Hewlett-Packard hækkaði í dag um 7,9%. Aukin sala á síðasta ári auk hagstæðrar afkomuspár á þessu ári leiddu af sér hækkun fyrirtækisins.

Fréttir af góðu gengi Hewlett-Packard höfðu áhrif á önnur fyrirtæki í sama geira en sá hluti sem snýr að tölvu- og hugbúnaðarfyrirtækjum í S&P 500 vísitölunni hækkaði um 1,7% í dag, mest allra geira.

Atvinnumálaráðuneyti Bandaríkjanna tilkynnti einnig í dag að neysluverð hefði hækkað um 0,4% í janúar en áður hafði verið gert ráð fyrir 0,3%. Fyrir utan mat og eldsneyti hækkaði neysluverð um 0,3%.

Fjármálafyrirtæki hækkuðu í dag og ber þá helst að nefna að MBIA hækkaði um 4,1% og Ambac stóð í stað. Þessir tveir lánarisar hafa lækkuðu nokkuð í síðustu viku en viðmælandi WSJ segir það merki um bata fjármálageirans að lækkun þeirra skyldi ekki halda áfram

Enn hækkar hráolían í verði

Hráolían hækkaði enn og fór tunnan hæst í 101,32 bandaríkjadali í dag. Við lok dags kostaði tunnan 100,74 dali og er það hækkun upp á 73 cent frá því í gær.

Viðmælandi Bloomberg fréttaveitunnar segir ekki ólíklegt að olíuverð fari yfir 120 bandaríkjadali á þessu ári. Exxon hækkaði í dag um 1,3% auk þess sem önnur olíufélög hækkuðu en það orsakast af hækkandi olíuverði.